Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2006

Framsókn = pólitískar ráðningar

Kratablogginu fannst áhugaverð sú upptalning sem Kastljósið var með í gær á pólitískum ráðningum Framsóknarflokksins í borginni. Ýmsir hafa notið góðs af því að vera í góðum tengslum við Björn Inga Hrafnsson, formann borgarráðs á síðustu mánuðum.

 óskarogbingi1. Óskar Bergsson varaborgarfulltrúi Framsóknarflokksins hefur verið ráðinn til eins árs sem verkefnisstjóri hjá Faxaflóahöfnum í tengslum við uppbyggingu Mýrargötusvæðisins. Verkefnið felst í  “nauðsynlegri hagsmunagæslu” Faxaflóahafna gagnvart framkvæmda og skipulagssviði Reykjavíkurborgar. Óskar er sjálfur formaður framkvæmdaráðs borgarinnar og varaformaður skipulagsráðs að auki. Óskar fær greiddar 390.000 kr. á mánuði fyrir 15 stunda vinnuskildu á viku sem bætast ofan á föst laun 377.000 kr. á mánuði sem Óskar þiggur sem varaborgarfulltrúi og formaður framkvæmdaráðs.

Í tilfelli Óskars er kjörinn fulltrúi borgarinnar að selja fyrirtæki í bænum þjónustu við að koma verkefnum fyrirtækisins áfram gagnvart þeim sviðum borgarinnar sem hann veitir pólitíska forystu. Hann á því að gæta hagsmuna beggja vegna borðsins. Þetta er hættulegt fordæmi að mati Kratabloggsins.
 

2. Pétur Gunnarsson fyrrum framkvæmdastjóri þingflokks Framsóknarflokksins og ritstjóri kosningavefs flokksins hefur verið ráðinn sem verktaki hjá Faxaflóahöfnum vegna uppfærslu á netsíðu fyrirtækisins. Verkefnið er til 3 mánaða, en óljóst er hvað hann fær í laun. Á vefsíðu sinni viðurkennir Pétur að ráðningin sé vegna tengsla sinna við Björn Inga.

Rétt er að geta þess að Faxaflóahafnir eru undir stjórnarformennsku Björns Inga Hrafnssonar flokksbróður Óskars og Péturs.

3. Ásrún Kristjánsdóttir varaborgarfulltrúi Framsóknarflokksins hefur verið ráðin sem verkefnisstjóri vegna kortlagningu hönnunariðnarins innan borgarinnar. Í það 3 mánaða verkefni hafa verið settar 1,5 milljónir kr., m.a. til að borga laun Ásrúnar.

4. Rúnar Hreinsson fyrrum kosningastjóri borgarstjórnarflokks Framsóknarflokksins í Reykjavík hefur verið ráðinn sem verkefnisstjóri Kvikmyndaborgin Reykjavík. Í það 9 mánaða verkefni hafa verið settar 1,5 milljónir kr., m.a. til að borga laun Rúnars.  Auk þess hefur ráðgjafarfyrirtækið Innvís sem tengist Rúnari verið ráðið í margvísleg verkefni fyrir Reykjavíkurborg. Rúnar neitaði að svara hvort hann væri starfsmaður eða eigandi Innvís og einnig að svara því hvort hann hefði verið kosningastjóri framsóknarmanna í síðustu borgarstjórnarkosningum (sem allir jú vita).

björningiKratablogginu finnst einkennilegt að ekki skyldi vera auglýst eftir einstaklingum í þessi verkefni eða leitað tilboða verkfræðistofa eða frá reyndum verkefnisstjórum, heldur ákveðið að ráða fólkið vegna pólitískra tengsla við Björn Inga. Það er þó spurning hvort það teljist eitthvað óeðlilegt þegar Framsókn á í hlut? Enda segir Björn Ingi í Kastljósinu í gær: 

 

Ég tel að það hafi verið fullkomlega eðlilega staðið að þessum ráðningum enda er þarna í öllum tilfellum um að ræða tímabundnar verkefnaráðningar [...] og það er nú einu sinni þannig að það er kominn nýr meirihluti sem ætlar að fylgja sínum hugmyndum úr hlaði. Ég hef ekki komið að öllum þessum ráðningum beint en ég þekki þetta fólk og treysti því.

 Kratabloggið skilur ekki hvers vegna það sé eitthvað eðlilegra að ráðningar séu flokkspólitískar þegar um er að ræða tímabundnar ráðningar frekar en í fastar stöður. Markmið ráðninga hlýtur ævinlega vera að fá hæfasta fólkið til starfans og þá hlýtur að vera eðlilegt að gefa fólki sem telur sig getað unnið verkefnið tækifæri á að bjóða fram krafta sína. Ef núverandi meirihluti Framsóknar og Sjálfsstæðismanna telja að þeir sem ráðnir hafa verið séu hæfastir til að sinna verkefnunum eiga þeir ekki að óttast að auglýsa þau!

Óneitanlega leggst sá grunur að Kratablogginu að verið sé að veita pólitíska greiða. Ef þetta er pólitískar ráðningar afhverju eru þá þeir sem ráðnir eru ekki á venjulegum nefndarlaunum? Hverjum finnst eðlilegt að Óskar Bergsson sé að fá 390.000 krónur á mánuði fyrir 15 tíma vinnu á viku? Jú, þeim sem eru að veita pólitíska greiða. Eru Sjálfstæðismenn tilbúnir að standa undir pólitískum greiðum Framsóknar?


Menn verða að gleyma málum áður en þeir gera eitthvað í þeim

Ingólfur MargeirsIngólfur Margeirsson rithöfundur og sagnfræðingur heldur úti ágætum vef og ritar þar reglulega um hin ýmsu mál. Í nýlegri færslu gerir Ingólfur góðlátlegt grín af ráðherra samöngumála, Sturlu Böðvarssyni.

Umferðarmál hafa mjög verið í deiglunni undanfarna dag. Í tilefni þess efndi samgöngumálaráðherra til blaðamannafundar í vikunni og lagði fram eftirfarandi yfirlýsingu:

„Kæru landar. Vegna síendurtekinna umferðarslysa, einkum á Suðurlandsvegi, hefur ríkisstjórnin ákveðið að verja mörgum tugum milljóna í borun jarðgangna milli Bolungarvíkur og Ísafjarðar. Til að minnka dauðagildrur á Vesturlandsvegi hefur ríkisstjórnin ákveðið að grafa jarðgöng frá Ólafsfirði yfir í Héðinsfjörð og áfram til Siglufjarðar. Það mun auðvelda þeim 864 bifreiðum sem aka milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar á ári, aksturinn og auka ferðaránægju ásamt því að ferðalöngum gefst tækifæri á að njóta náttúrufegurðar í Héðinsfirði en samkvæmt Hagstofunni hafa aðeins 268 manns komið í Héðinsfjörð frá árinu 1938. Jarðgöngin verða tvíbreið. Gætt hefur nokkurs ofsa í málflutningi manna um að  stækka Suðurlandsbraut í tvíbreiða akstursbraut vegna undanfarinna alvarlegra umferðarslysa. Ríkisstjórnin bendir á að flas er aldrei til fagnaðar og gott sé að láta mál setjast og róast áður en menn rjúka í framkvæmdir. Menn verða að gleyma málum áður en þeir gera eitthvað í þeim. Jarðgöngin fyrir norðan og vestan eru hins vegar orðin það gömul að enginn man eftir þeim, eða svo segja kjósendur mínir fyrir vestan sem vissulega eiga nú skilið jarðgöng. ..."

Svartur blettur á sögu þjóðarinnar

Þetta er svartur blettur á sögu þjóðarinnar [...] sem verður að upplýsa

Ingibjörg SólrúnTalsverðar utandagskrárumræður voru um símhleranir á Alþingi á föstudag. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hóf máls á umræðunum með því að segja að svo virðist sem Sjálfstæðisflokkurinn hafi misbeitt ríkisvaldinu í kalda stríðinu og vegið að orðspori og æru þeirra sem urðu fyrir hlerunum. Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra, svaraði fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins í forföllum Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra og reyndi að klína hlerununum á samstarfsflokkinn Framsókn. Árni M MathiesenÁrni nefndi meðal annars að hlutur feðganna Steingríms Hermannssonar og Hermanns Jónassonar, fyrrverandi forsætisráðherra, væri ekki lítill í þessum efnum. Eru hleranirnar þá í lagi ef Framsókn tók líka þátt í þeim?

Í sömu umræðu lét Árni þau ummæli falla að:

Einnig væri athyglisvert að ekki væri vitað um hleranir án leyfis dómara

Kratabloggið veltir því fyrir sér hvað teljist svona athyglisvert við það? Eru það athyglisverð tíðindi ef Sjálfstæðisflokkurinn fer að lögum þó að hann hugsanlega hefði komist upp með annað þar sem allir sem komu að hlerununum eru innmúraðir, flokkshollir Sjálfsstæðismenn sem hefðu ekki gert athugasemdir þó að lög hefðu verið brotin?

Kratablogginu finnst ekki nokkurt vit í öðru en að láta þingnefnd rannsaka hlerunarmálin til að komast að hvert umfang hlerananna hafi verið og hverjir hafi staðið að baki þeim og hvaða ástæður hafi leytt til hlerananna. Eru ástæðurnar þær að Sjálfstæðismenn og Framsókn vildu fá ýtarlegri upplýsingar um starfsemi stjórnarandstöðunnar? Markmið þingnefndarinnar væri að eyða þeirri miklu óvissu sem er um þessar hleranir en ekki að sakfella einn né neinn.


Þykjustuleikur Framsóknar byrjaður

gudjonbestastorFramsóknarflokkurinn er byrjaður á sínum gamalkunna hallærisleik rétt fyrir kosningar að þykjast vera í stjórnarandstöðu í mörgum málum.

Annað hvort þykjast þeir ekki ráða neinu sbr. upphlaup Guðjóns Ólafs Jónssonar vegna samkomlagsins um þinglokin eða þá að þeir búa til andstöðu við mál sem þeir hafa sjálfir undirbúið í ríkisstjórn. Þykjast allt í einu ekki vera sú hækja/skækja sem allir eru farnir að þekkja úr 12 ára ríkisstjórnarsamstarfi þeirra við Sjálfstæðisflokkinn.

Framsóknarflokkurinn er búinn að vera í ríkisstjórn nær sleitulaust í 35 ár. Það er óhugsandi að þessi skuggaleikur þeirra virki í enn eitt skiptið. Sama hverju þeir kosta til í auglýsingar eða hversu oft sem þeir framleiða svona upphlaup í þinginu - þeir geta ekki þvegið það af sér. Hvað sem þeir lofa í kosningabaráttunni þá munu kjósendur spyrja hvers vegna þeir hafi ekki gert þetta fyrr?


Umbætur á suðvesturhorninu nauðsynlegar

Umbætur á samgöngumannvirkjum á suðvesturhorninu eru nauðsynlegar. Í morgun var umræða um tvöföldun Suðurlandsvegar á Alþingi. Kratabloggið hefur áður bent á nauðsyn þess að helstu akstursvegir til og frá höfuðborginni verði tvöfaldaðir. Það er staðreynd að frá því að Reykjanesbrautin var að hluta tvöfölduð hefur banaslys ekki orðið og alvarlegum slysum fækkað. Bjorgvin GFólk örkumlast og týnir lífi á Suðurlandsveginum á ári hverju. Það er önnur staðreynd sem ekki er hægt að horfa fram hjá.

Kostnaður við tvöföldun Suðurlandsvegar er á reiki. Jón Rögnvaldsson, vegamálastjóri, hefur sagt í fjölmiðlum að kostnaðurinn sé 12 milljarðar. Aftur á móti segir Þorvarður Hjaltason, framkvæmdastjóri Sunnlenskra sveitarfélaga, að í sundurliðuðu bréfi frá Vegagerðinni frá miðju seinasta ári komi fram að verði útfærslan svipuð og farin var varðandi tvöföldun Reykjanesbrautar verði kostnaðurinn 7-8 milljarðar. Í umræðunni í morgun benti ennfremur Björgvin G. Sigurðsson á að í skriflegu svari samgönguráðherra við fyrirspurn á síðasta ári hafi verið áætlað að tvöföldun vegarins frá Reykjavík til Selfoss kostaði 6-8 milljarða.

Sturla BöðvarsÞað munar talsverðu - 6 eða 12 milljarðar. Munurinn slagar upp í kosningaloforð Frjálslynda flokksins fyrir kosningarnar 2003 þegar Guðjón Arnar Kristjánsson og félagar vanreiknuðu stefnu og loforð flokksins upp á rúmlega 10 milljarða!

Hvað um það. Sturlu Böðvarssyni, samgönguráðherra, ber að höggva á hnútinn og upplýsa hver hinn raunverulegi kostnaður er við tvöföldunina.


mbl.is Óvissa um kostnað við tvöföldun Suðurlandsvegar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Formaðurinn bloggar

Margrét Sverris Formaður húsfélags Austurstrætis 9 er byrjaður að blogga og er það vel. Það er fagnaðarefni að fleiri og fleiri stjórnmálamenn hafa ákveðið að nýta sér mátt veraldarvefsins. Athyglisvert verður að fylgjast með skrifum Margrétar Sverrisdóttur á næstu misserum en það stefnir allt í uppgjör mikið á meðal ,,frjálslyndra" strax á nýju ári. Hvort Guðjóni Arnari verður hafnað eða hann felldur (sbr. þingflokkurinn rak Margréti ekki, heldur sagði henni upp að mati Guðjóns formanns) verður að koma í ljós.

Löglegt en siðlaust

Kristján Þór Er frasi sem gjarnan er kenndur við Vilmund Gylfason og var hluti af þjóðfélagsgagnrýni hans á 8. og í upphafi 9. ártugar seinustu aldar. Gott er að hafa gagnrýni hans í huga í tengslum við umræðuna um biðlaun bæjarstjóranna fráfarandi Kristjáns Þórs Júlíussonar á Akureyri og Stefaníu Katrínar Karlsdóttur í Árborg.

Ekki eru allir á eitt sáttir með útskýringar Kristjáns Þórs og þá ákvörðun hans að þiggja sex mánaða biðlaun.

Hlynur Hallsson, varaþingmaður Vinstri grænna, segir:
Er þetta ekki eitthvað einkennilegt? Var það semsagt Samfylkingin sem sagði bæjarstjóranum upp? En nú er Kristján Þór ekkert að hætta, hann verður forseti bæjarstjórnar. Verður hann þá á tvöföldum launum? Og svo verður hann væntanlega þingmaður eftir þann 12. maí í vor og þá einnig á þingmannslaunum. Verður hann þá á þreföldum launum í maí og júni. Er þetta ekki einum of... eða jafnvel tveimur of.... eða bara þremur of? Talandi um löglegt en siðlaust.

Stjórnarmaður í félagi ungra sjálfstæðismanna í Garðabæ segir þetta um ákvörðun flokksfélaga síns:
Eins og Kristján Þór hafi ekki verið búinn að hugleiða að gefa kost á sér til þingsetu þegar hann undirritar framlengingu á starfssamning sínum að loknum sveitastjórnarkosningum?

Ég fæ ælu í hálsinn við það að lesa þessar aumu og lélegu afsakanir sem hann týnir til. Þessir sveitastjórnarmenn eru meira og minna siðlausir upp til hópa.

mbl.is Halldór naut ekki biðlaunaréttar sem bæjarstjóri á Akureyri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Málsvari venjulega fólksins

Ingibjörg Sólrún Það er stundum sagt að pólitíkin snúist ekki um ,,venjulegt" fólk og er án efa margt til í því. Umræðan vill oft verða um toppana og þá sem hallað er á í samfélaginu. Í þessu sambandi var fróðleg áhersla Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur á flokkstjórnarfundi Samfylkingarinnar sem haldinn var síðustu helgi á málefni þessa stóra hóps. Þar benti formaðurinn á raunveruleg dæmi sem opinbera vel hvernig áherslur ríkisstjórnarflokkanna koma niður á venjulegu fólki þrátt fyrir orð þeirra um annað.

Dæmi Ingibjargar í ræðunni var eftirfarandi:

Tökum dæmi af hjónum með 500.000 krónur heildartekjur á mánuði sem tóku 12,5 milljóna króna húsnæðislán til 20 ára árið 2003 í upphafi þessa kjörtímabils. Þessi hjón hefðu að öðru jöfnu fengið 110 þúsund krónur í skattalækkun á ári á  undanförnum 4 árum. En verðbólgan hefur hins vegar hækkað afborgunina af húsnæðisláni þeirra um jafnháa upphæð á sama tímabili, m.ö.o. skattalækkunin er öll farin í hærri afborganir af húsnæðisláninu. En það segir ekki alla söguna – uppreiknaður höfuðstóll húsnæðislánsins hefur hækkað um 1 milljón króna umfram það sem gerst hefði ef verðbólgan hefði verið í samræmi við markmið Seðlabankans.  Sú hækkun situr eftir þó að verðbólgan hjaðni og hjónin okkar munu því greiða vexti af þessari auka milljón næstu 16 árin.

Þetta ætti nú að koma róti á huga margra sem eru í þessari stöðu.

Bragðlaus athafnastjórnmál Vilhjálms og Björns Inga

Steinunn Valdís Steinunn Valdís Óskarsdóttir segir á heimasíðu sinni að miðað við yfirlýsingar Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar og Björns Inga Hrafnssonar um athafnastjórnmál hafi fjárhagsáætlunin, sem kynnt var í Borgarstjórn í gær, verið óttalega bragðlaus. Steinunn Valdís segir stefnu meirihluta Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks vera skýra.

Reykjavík á ekki lengur að vera með lægstu gjaldskrár fyrir samfélagsþjónustu. Gamla fólkið og barnafjölskyldurnar skulu borga.

Athafnastjórnmál Björns Inga og Vilhjálms í hnotskurn

Dagur B. Eggertsson
Dagur B. Eggertsson segir einu pólitísku tíðindin sem felast í fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar vera gjaldskrárhækkanir á öllum sviðum langt umfram verðlagshækkanir. Dagur birtir á heimasíðu sinni Topp tíu listi yfir gjaldskrárhækkanir í fjárhagsáætlun borgarinnar sem er í anda athafnastjórnmála Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar og Björns Inga Hrafnssonar.

Hækkanir á eldri borgara:
1. Gjaldskrá fyrir heimaþjónustu aldraðra hækkar um 8,8%.
2. Gjaldskrá fyrir frístundastarf eldri borgara hækkar um 9,7%.
3. Gjaldskrá fyrir hádegis- og kvöldmat hækkar um 9,2-9,6%.
4. Kaffi, te, mjólk og drykkjarvörur hækka um 10%.

Hækkanir á barnafjölskyldur:

Bingi og Villi 5. Sundferðir fullorðinna hækka um 25% fyrir hvert skipti, 10 miða kort um 10% en árskort um 8,8%.
6. Gjaldskrá fyrir leikskóla hækkar um 8,8%.
7. Gjaldskrá fyrir frístundaheimili hækkar um 8,8% og hefur þá hækkað um 14,9% á árinu.
8. Gjaldskrá grunnnáms skólahljómsveita hækkar um 20%. Hækkanir á sorphirðu og í stöðumæla í miðbænum.
9. Gjaldskrá fyrir sorphirðu á að hækka um 22,8%.
10. Gjaldskrá í stöðumæla fyrir þriðju og fjórðu stund hækkar um 50-100%.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Nýkratar

Nýkratar
Nýkratar er félagskapur fólks sem aðhyllist sósíaldemókratisma (jafnaðarstefnu) í stjórnmálum.

Fólk

Hugmyndabankar Sósíaldemókrata

Sósíaldemókratar um heim allan

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband