Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

,,Margt, nýtt, ungt og flott fólk"

„Það er margt, nýtt, ungt og flott fólk í flokknum, með ferskar hugmyndir sem ég sé ekki hjá hinum flokkunum og sérstaklega ekki hjá mínum fyrrverandi flokki Sjálfstæðisflokknum.“ Hann nefnir vilja til að búa ungum fyrirtækjum hagstæðari skilyrði og „sterkari framtíðarsýn, sérstaklega í grænu málunum. Fagra Ísland þarf að ná fram að ganga.“


Sagði Reynir Harðarson, stjórnarmaður Framtíðarlandsins og stofnandi CCP, í Morgunblaðinu í gær. Reynir skipar 6. sæti framboðslista Samfylkingarinnar í Rvk.-Suður. Fjölmörg önnur áhugaverð nöfn er að finna á framboðslistum flokksins í Reykjavík eins og t.a.m. Sólveig Arnardóttir leikkona sem einnig hefur látið til sín taka í Framtíðarlandinu, Margrét Kristmannsdóttir formaður Félags kvenna í atvinnurekstri, Bergur Felixson fyrrv. framkvæmdastjóri Leikskóla Reykjavíkur, Lárus Ýmir Óskarsson kvikmyndaleikstjóri og söngkonan Ragnheiður Gröndal.

Heiðurssæti framboðslistanna skipa Guðrún Halldórsdóttir fyrrv. skólastjóri Námsflokka Reykjavíkur og fyrrv. þingmaður Kvennalistans, Bryndís Hlöðversdóttir fyrrv. þingflokksformaður Samfylkingarinnar, Grétar Þorsteinsson forseti Alþýðusambands Íslands og Guðrún Ögmundsdóttir alþingismaður.


Álagið sem fylgir því að vera frammari

Ingvar GislaIngvar Gíslason er maður einn er var þingmaður Framsóknarflokksins og ráðherra menntamála 1980-83 í ríkisstjórn Gunnars Thoroddsen, þáverandi varaformanns Sjálfstæðisflokksins. Ríkisstjórnina myndaði Gunnar með Framsóknarflokknum og Alþýðubandalaginu í félagi við nokkra þingmenn Sjálfstæðisflokksins en í algjörri óþökk Sjálfstæðisflokksins.

Hvað um það. Ingvar þessir skrifar grein í Fréttablaðið í dag um álagið sem fylgir því að vera félagi í Framsóknarflokknum. Sér í lagi viðhorfið sem mæti flokknum í borg óttans - Reykjavík.

Ingvar ritar:

Ég hafði ekki verið lengi í Reykjavík þegar ég fór að finna fyrir pólitískum fordómum á mínu eigin skinni. Fúslega hafði ég samþykkt þá beiðni að nafni mínu væri raðað ofarlega á lista sem framsóknarmenn í háskólanum stóðu að í stúdentaráðskosningum haustið 1947. En þá brá svo við að ýmsir málkunningjar mínir úr Reykjavík lýstu furðu sinni og sögðust ekki trúa því að ég væri ,,frammari"!

Omar StefanssonEkki er langt síðan að oddviti og jafnframt eini bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins í Kópavogi, Ómar Stefánsson, kvartaði sárann yfir einelti og því illa umtali sem flokkurinn hefði ,,lent í" og fordæmdi barmmerki sem Vinstri grænir voru duglegir að dreifa í kosningunum sl. vor - ,,Aldrei kaus ég framsókn!

Já, það er ekki tekið út með sældinni að vera frammari.

Þriðji hver eldri borgari þarf að lifa undir fátæktarmörkum

Ágúst Ólafur Ágústsson fjallar um málefni eldri borgara á vefsíðu sinni:

Þriðji hver eldri borgari þarf að lifa undir fátæktarmörkum. Þriðji hver! Þetta er ekki lítill hópur. Þá berast ítrekað fréttir af eldri hjónum sem hafa verið aðskilin vegna skorts á búsetuúrræðum. Maður kemst ekki hjá því að verða nokkuð reiður að heyra af slíku.

Samfylkingin hefur alltaf sett málefni eldri borgara á oddinn. Fyrsta þingmálið okkar í haust og fyrri ár hefur iðulega verið um kjaraaukningu fyrir eldra fólkið í landinu. Þessi mál okkar eru hins vegar ætíð svæfð í nefndum eða beinlínis kosið gegn þeim.

Er ekki kominn tími á eitthvað gerist í þessum málaflokki?

Geir Hilmar Haarde, sætasta stelpan á ballinu og óléttan í Byrginu

Geir Hilmar HaardeIllugi Jökulsson skrifar í Blaðið í dag góðan pistil um ,,slysin" sem henda forsætisráðherra þjóðarinnar - Geir H. Haarde.

Um sætustu stelpuna á ballinu og varaskeifuna sem gerir sama gagn að mati Geirs skrifar Illugi:

Þetta hljómaði svona eins og eitthvað sem bólugrafinn töffari á táningsaldri segir klukkan korter í þrjú. En Geir Hilmar Haarde er á sextugsaldri. Og hann er forsætisráðherra þjóðarinnar. Og hann var að tala um varnar- og öryggismál.

Og um splúnkunýja karlrembuyfirlýsingu Geirs um konurnar sem beittar voru líkamlegu og andlegu ofbeldi í Byrginu - ,,Auðvitað er ekki hægt að fullyrða að þessar stúlkur hefðu ekki orðið barnshafandi hvort eð er..." - segir Illugi:

Og hvað átti þessi athugasemd svosem annað að þýða? Átti þetta að vera gilt sjónarmið í alvöru umræðu? Ha, þúsundum kvenna nauðgað í stríðinu í Júgóslavíu? Jú, að vísu, en auðvitað er ekkert hægt að fullyrða að stúlkunum hefði ekki verið nauðgað hvort sem er. Hundrað manns sprengdir í loft upp daglega í stríðinu okkar í Írak? Æjú, en það getur vel verið að það fólk hefði dáið hvort eð var.

Geir Hilmar Haarde forsætisráðherra verður ósköp einfaldlega að skýra þessi orð sín, og hann verður umfram allt að biðja stúlkurnar sem misnotaðar voru í Byrginu afsökunar.

Álafosskvosin og VG

Kristín Svava Tómasdóttir háskólanemi skrifar um Álafosskvosina og umhverfisstefnu Vinstri grænna:

Álafosskvosin er eini fallegi staðurinn í þessu annars ljóta bæjarfélagi, Mosfellsbæ. Mér finnst kannski fullmikið gert úr mikilvægi þess að hljómsveitin Sigur Rós hafi kyrrð og næði til tónlistaræfinga, en burtséð frá því þá ríkir í kvosinni kyrrð og næði, þar er gróið útivistarland, minjar um íslenska iðnaðarsögu og eitt stykki friðlýst á. Samkvæmt bæjaryfirvöldum hefur verið lögð áhersla á það í hönnun vegarins að hann „valdi sem minnstri röskun á umhverfi, hljóðvist og útsýni“. Í fyrsta lagi: hljóðvist? Í öðru lagi: hvernig sem þessi vegur er hannaður þá verður því ekki breytt að hann liggur svo að segja beint ofan í kvosina og verði hann ekki byggður inni í hljóðeinangruðu röri og þar að auki gerður ósýnilegur, þá mun hann valda heilmikilli röskun á „hljóðvist“ og útsýni.

Mosfellsbær er eina sveitarfélag landsins þar sem Vinstri grænir eru í meirihlutasamstarfi. Ætli þetta sé forsmekkurinn af umhverfisstefnu flokksins, komist hann til valda annars staðar? Mér finnst þetta allavega ekki lofa góðu. Þetta stjórnmálapakk sökkar svo feitt upp til hópa að ég gæti ælt.

Snillingar Davíðs

Við Íslendingar njótum þeirra "forréttinda" (kaldhæðni að hætti Davíðs) að hafa sennilega pólitískasta Seðlabankastjóra í heimi.  Í flestum öðrum löndum er embætti Seðlabankastjóra virðingarstaða þar sem menn sitja sem njóta virðingar innan fjármálaheimsins, sem og meðal almennings.  Oftast reyna menn að ráða í þetta starf menn sem eru yfir dægurþras hafnir og geti því gefið Seðlabanka landsins trausta ímynd.

Á Íslandi er þetta embætti hins vegar notað til að koma gömlum stjórnmálamönnum í þægilegar stöður.  Gallinn við það fyrirkomulag er sá að seðlabankastjóri verður aldrei yfir dægurþras hafinn og traust almennings á bankanum verður minna.  Nú er það til að mynda svo að núverandi Seðlabankastjóri getur lítið gagnrýnt hagstjórn einsog slíkir stjórar ættu að gera, án þess að gagnrýna um leið þá stefnu sem hann skapaði.

Davíð Oddson er líka enn stjórnmálamaður og sýna afskaplega barnaleg ummæli hans í kvöldfréttum í gær það greinilega.  Davíð segir:

Það er nú bara þannig að sumir hafa verið að segja að við verðum að taka upp evru, annars verði hagvöxtur minni - ég hef heyrt suma snillingana segja það.

Þetta er alveg afskaplega hallærislegt.  Fyrir þá sem heyrðu ekki viðtalið og geta ekki lesið kaldhæðnina útúr textanum, þá var það augljóst að með "snillingum" þá átti Davíð við að þarna væru vitleysingar að tala.  Gleymum því hversu kjánalegt það er að Seðlabankastjóri skuli láta svona útúr sér og einbeitum okkur fyrst að því sem hann segir "snillingana" hafa sagt.   Það er, að upptaka evru sé til að auka hagvöxt.

Nú hef ég fylgst ansi vel með umræðunni, en ég man hreinlega ekki hvar það er minnst á það að upptaka evru geti aukið hagvöxt. 

Getur einhver bent mér á það hvaða "snillingur" sagði það og við hvaða tilefni?

Það er ekkert mál að vinna rökræður ef menn gera andstæðingum sínum upp skoðanir.  Hagfræðingar hafa bent á ótal rök fyrir upptöku evru - og Davíð ætti frekar að eyða tíma sínum í að andmæla þeim í stað þess að gera þeim upp nýjar skoðanir. 

(EÖE) 


Bankar, borgarráðsformaður og borgarstjóri = óeðlileg tengsl

bjorningiMeð stuttu millibili hefur verið sagt frá því í blöðunum að tveir valdamestu kjörnu fulltrúar borgarbúa, þeir Björn Ingi Hrafnsson og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson hafi verið í lúxusboðsferðum til útlanda á vegum bankanna.

Kratabloggið furðar sig á því að þetta hafi ekki vakið meiri athygli og því að formaður borgarráðs og borgarstjórinn í Reykjavík skuli ekki hafa verið krafðir skýringa á þessari háttsemi sem víðast hvar myndi verða að hneykslismáli (og í Svíþjóð vafalaust leiða til afsagna).

Það kom fyrst fram fyrir u.þ.b. tveimur vikum að Vilhjálmur borgarstjorinnborgarstjóri hafi flogið til Lundúna í boði Landsbankans og hafi m.a. fylgst með Arsenal-leik í einkastúku bankans á Emirates-vellinum. Það kom fram á sama stað að Landsbankinn væri viðskiptabanki borgarinnar.

Síðan kom fram í einu dagblaðanna í gær að Birni Inga, formanni borgarráðs, hafi ásamt 200 helstu forstjórum og fjárfestum landsins verið boðið í lúxusferð til þessarar sömu borgar og notið þar alls kyns dýrindis veiga í boði Kaupþings.

Það er ekkert leyndarmál að svona viðgjörningur er hugsaður af bönkunum til að reyna að afla sér viðskiptavildar. Það sér hvert mannsbarn að bankinn gerir þetta í hagnaðarskyni og engu öðru. Það er heldur ekkert við því að segja þegar um er að ræða viðskipti tveggja einkaaðila. En þegar viðskiptin sem bankinn ásælist eru við borgarbúa þá er hin eina rétta leið að þeir sýni þann áhuga með því einfaldlega að bjóða sem hagstæðust kjör og að viðskiptin séu ákveðin með formlegu útboðsferli.

Fullyrða má að þorri skattgreiðenda vilji að kaup á þjónustu fyrir þeirra peninga hafi sem minnst með það að gera hverjum af embættismönnum borgarinnar sé boðið í lúxusferðir.
Það er að okkar mati jafnvel enn alvarlegra að borgarstjórinn skuli þiggja slíka "greiða" af banka sem er í miklum viðskiptum við borgina.
geir h haarde
Töluverð gagnrýni kom fram á það á sínum tíma að Geir H. Haarde, þáverandi fjármálaráðherra, skyldi hafa þegið boðsferðir í laxveiði af ákveðnum banka. Málinu var hins vegar lítið sem ekkert fylgt eftir af fjölmiðlum. Og engar reglur virðast vera í gildi um hvaða gjafir/sporslur/greiða kjörnir fulltrúar og embættismenn megi taka við. Reyndar má fara enn lengra aftur og benda á að fyrrum borgarstjóri, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fékk líka á sig vænan skammt af gagnrýni á sínum tíma fyrir að þiggja boðsferð frá Mitsubishi til Japan. Dæmin eru því miður mýmörg.
isg
Það þekkist varla nokkurs staðar í hinum vestræna heimi að ekki séu til neinar reglur um þessa hluti. Víðast hvar eru þvert á móti þær svo strangar að bannað er þiggja nokkuð yfir ákveðinni fjárhæð sem jafngildir þá u.þ.b. nokkur þúsund íslenskum krónum.

Lítið þýðir að halda því fram að bankar væru að splæsa svona miklu á akkúrat þessa sömu menn, nema einmitt af því að þeir gegna trúnaðarstörfum fyrir hönd almennings. 

En burtséð frá öllum reglum þá er það auðvitað mikill dómgreindarbrestur af hálfu þessara manna að þiggja þessar ferðir. Þeim er sjálfum fyrir bestu að þetta verði bara bannað. Með því að leyfa sér að taka þátt í þessum leik með bönkunum og öðrum sem kunna að vera að "tríta" þá eitthvað þá gefa þeir færi á sér og búa til andrúmsloft tortryggni.

Björn Ingi ætti að vera farinn að þekkja hvernig er að vera í stjórnmálaflokki sem allur þorri þjóðarinnar tortryggir.F 11

Og Vilhjálmur býður heim alls kyns óþarfa samsæriskenningum með því þiggja góðgerðir frá Landsbankanum aðeins nokkrum vikum áður en hann mun taka þátt í að ákveða hvort eigendum bankans, Björgólfsfeðgum, verði seld ein merkilegasta fasteign í Reykjavík: Fríkirkjuveg 11. Þar mun samkvæmt fréttum ekki aðeins eiga að horfa til þess hver bjóði hæst í eignina heldur verði aðrir huglægir þættir látnir ráða.

Er borgarstjórinn þá orðinn vanhæfur?


Burt með okrið! Við eigum ekki að sætta okkur við þessa dýrtíð

Talsverð umræða er nú um okursamfélagið sem við búum í. Samfylkingin hefur lengi bent á hversu galið það er að íslenskur almenningur þurfi að borga eitt hæsta matvælaverð í heimi, eitt hæsta lyfjaverð í heimi, eitt hæsta bensínverð í heimi og eina hæstu vexti í heimi. Við eigum ekki að sætta okkur við þessa dýrtíð. Það þarf pólitískan vilja til að breyta ástandinu og hann skortir hjá ríkisstjórninni. Hún hefur haft 12 ár til að taka á málinu.

Óboðlegar skoðanakannanir

Egill Helgason þáttastjórnandi skrifar um nýlegar skoðanakannanir á svæði sínu á Vísi.is

Skoðanakönnun sem Blaðið birtir í morgun byggir á um það bil 300 manns. Úrtakið í könnuninni er 750. Svarhlutfallið er 88 prósent. Af þeim taka 53 prósent afstöðu. Þetta er ekkert til að byggja neina umræðu á. Enda virðist sumt í könnuninni vera alveg út úr kortinu - til dæmis 45,4 prósenta fylgi Sjálfstæðisflokksins. ... Er ekki ástæða til að biðja þá sem gera skoðanakannanir að vanda sig, eða sleppa því ella? Það eru að koma kosningar - og á þeim tíma er viss ábyrgðarhlutur að framkvæma skoðanakannanir. Því þær eru að vissu leyti skoðanamótandi. ... Menn hljóta líka að gera kröfu um að vinnubrögðin séu almennileg, ekki bara hippsum happs.

Guðmundur Steingrímsson frambjóðandi Samfylkingarinnar gantast með seinustu kannanir og segir framboðslista Óákveðinna vera á blússandi siglingu.

Einhvern tímann lagði ég til í hálfkæringi í góðra vina hópi að árangursríkast í pólitík væri líklega að bjóða fram lista óákveðinna. Óákveðnir myndu rúlla upp hvaða kosningum sem er. Nógu mikið fá þeir alla vega í skoðanakönnunum. Þeir eru með um og yfir 40% fylgi....


Samfylkingin í fyrsta, öðru og þriðja sæti

SamfylkinginFyrir helgi stóðu Samtök Sprotafyrirtækja og Samtök Iðnaðarins fyrir svonefndu Sprotaþingi sem hátt í 200 manns sóttu í Laugardalshöllinni. Þingflokkum stjórnmálaflokkanna var boðið að mæta á þingið með 1-3 þingmál sem miðuðu að eflingu nýsköpunar- og þróunarstarfs hér á landi. Tillögurnar voru gagnrýndar af fagaðilum og í lokin var kosið um hvaða tillögur þóttu bestar. Fyrir þingflokk Samfylkingarinnar mættu Ágúst Ólafur Ágústsson varaformaður flokksins, Katrín Júlíusdóttir þingmaður og Dofri Hermannsson framkvæmdastjóri þingflokksins.

Dofri skrifar á vefsíðu sína:

Við mættum til leiks með þrjár tillögur alls, tvær úr Hátækniáratugnum og heildartillöguna til að sýna að við vitum að hér þarf að taka á málum með heildstæðum hætti. Mat þeirra tæplega 200 gesta Sprotaþingsins á því hvaða þrjár tillögur væru bestar voru eftirfarandi:

   1. Tillaga Samfylkingarinnar um að stórefla Rannsóknar- og Tækniþróunarsjóð
   2. Tillaga Samfylkingarinnar um að koma upp endurgreiðslukerfi á R&D kostnaði
   3. Tillaga Samfylkingarinnar um Hátækniáratuginn

Tillögur annarra flokka voru líka margar góðar en gestir Sprotaþings höfðu á orði að Samfylkingin hefði lagt mun meiri vinnu í sínar tillögur en aðrir þingflokkar. E.t.v. er eitthvað til í því. Alla vega hefur Samfylkingin lagt mikla vinnu í að finna leiðir til að búa Nýja atvinnulífinu sem best skilyrði. Hér fylgir hugur máli.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Nýkratar

Nýkratar
Nýkratar er félagskapur fólks sem aðhyllist sósíaldemókratisma (jafnaðarstefnu) í stjórnmálum.

Fólk

Hugmyndabankar Sósíaldemókrata

Sósíaldemókratar um heim allan

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband