Leita í fréttum mbl.is

Snillingar Davíðs

Við Íslendingar njótum þeirra "forréttinda" (kaldhæðni að hætti Davíðs) að hafa sennilega pólitískasta Seðlabankastjóra í heimi.  Í flestum öðrum löndum er embætti Seðlabankastjóra virðingarstaða þar sem menn sitja sem njóta virðingar innan fjármálaheimsins, sem og meðal almennings.  Oftast reyna menn að ráða í þetta starf menn sem eru yfir dægurþras hafnir og geti því gefið Seðlabanka landsins trausta ímynd.

Á Íslandi er þetta embætti hins vegar notað til að koma gömlum stjórnmálamönnum í þægilegar stöður.  Gallinn við það fyrirkomulag er sá að seðlabankastjóri verður aldrei yfir dægurþras hafinn og traust almennings á bankanum verður minna.  Nú er það til að mynda svo að núverandi Seðlabankastjóri getur lítið gagnrýnt hagstjórn einsog slíkir stjórar ættu að gera, án þess að gagnrýna um leið þá stefnu sem hann skapaði.

Davíð Oddson er líka enn stjórnmálamaður og sýna afskaplega barnaleg ummæli hans í kvöldfréttum í gær það greinilega.  Davíð segir:

Það er nú bara þannig að sumir hafa verið að segja að við verðum að taka upp evru, annars verði hagvöxtur minni - ég hef heyrt suma snillingana segja það.

Þetta er alveg afskaplega hallærislegt.  Fyrir þá sem heyrðu ekki viðtalið og geta ekki lesið kaldhæðnina útúr textanum, þá var það augljóst að með "snillingum" þá átti Davíð við að þarna væru vitleysingar að tala.  Gleymum því hversu kjánalegt það er að Seðlabankastjóri skuli láta svona útúr sér og einbeitum okkur fyrst að því sem hann segir "snillingana" hafa sagt.   Það er, að upptaka evru sé til að auka hagvöxt.

Nú hef ég fylgst ansi vel með umræðunni, en ég man hreinlega ekki hvar það er minnst á það að upptaka evru geti aukið hagvöxt. 

Getur einhver bent mér á það hvaða "snillingur" sagði það og við hvaða tilefni?

Það er ekkert mál að vinna rökræður ef menn gera andstæðingum sínum upp skoðanir.  Hagfræðingar hafa bent á ótal rök fyrir upptöku evru - og Davíð ætti frekar að eyða tíma sínum í að andmæla þeim í stað þess að gera þeim upp nýjar skoðanir. 

(EÖE) 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Herbert Guðmundsson

Skelfing eruð þið úti að aka að vera að reyna að rífast við Davíð núna! Væri ekki nær að púkka upp á Ingibjörgu Sólrúnu ...?

Herbert Guðmundsson, 13.2.2007 kl. 18:31

2 identicon

Í BNA og ESB eru mjög ákveðnar reglur um að seðlabankastjóri skuli ekki tengjast stjórnmálasamtökum. T.a.m. er starfstími seðlabankastjóra í ESB átta ár til að koma í veg fyrir að hann láti stjórnast af skammtímahagsmunum stjórnvalda.

Skemmtilegt nokk þá voru samþykkt lög á alþingi árið 2002 sem segja til um að seðlabankastjóri SÍ eigi að vera ópólitískur. 

Agnar (IP-tala skráð) 13.2.2007 kl. 21:31

3 Smámynd: Elfur Logadóttir

Það þarf ekkert að "púkka upp á" Ingibjörgu Sólrúnu, hún er sterkur og öflugur stjórnmálaleiðtogi sem stendur af sér stórhríðina sem á henni hefur dunið undanfarið. Sjáðu til.

Þegar að því kemur að málefnin fá að eiga umræðuna en ekki endalaust skítkast, útúrsnúningar og annað pólitískt skak, heldur Samfylkingin áfram að safna kröftum, því það hefur ítrekað verið sýnt framá að flokkurinn hefur unnið heimavinnuna sína, svo um munar.

Fagra Ísland

Nýja atvinnulífið (allar þrjár tillögur Samfylkingarnar metnar betri en tillögur annarra stjórnmálaafla á Sprotaþingi)

Ég gæti haldið áfram, en veit að ég þarf þess ekki. 

Elfur Logadóttir, 13.2.2007 kl. 21:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Nýkratar

Nýkratar
Nýkratar er félagskapur fólks sem aðhyllist sósíaldemókratisma (jafnaðarstefnu) í stjórnmálum.

Fólk

Hugmyndabankar Sósíaldemókrata

Sósíaldemókratar um heim allan

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband