Leita í fréttum mbl.is

Vitnað í Vilmund

Vilmundur_GylfasonFrjálslynd jafnaðarstefna virðist standast tímans tönn. Eftirfarandi orð Vilmundar Gylfasonar eiga fullt erindi í umræðuna í dag:

[Það] má skipta ríkisafskiptum í tvo megin flokka: a) ríkisafskipti af framleiðslu: landbúnaðarstefna, byggðastefna, tollastefna, lánastefna í ríkisbönkum, peninga- og vaxtastefna. b) ríkisafskipti af velferðarmálum: menntamál, heilbrigðismál, stuðningur við þá, sem orðið hafa undir af einhverjum ástæðum, þ.e. tryggingamál, félagsmál hvers konar, dagvistun, stuðningur við íþróttir, listir o.s.frv. Mér hefur sýnst, en það kann þó að vera misskilningur, að í reynd hafi hugmyndir ungra sjálfstæðismanna um báknið burt, einkum snúið að síðarnefnda flokknum. 

[...]

Fjölmargir ágætustu hugmyndafræðingar jafnaðarmanna eru í dag þeirrar skoðunar að lýðræðis jafnaðarmennska (socialdemocracy) og frjálshyggjan (liberalism) séu ekki lengur andstæð hugmyndakerfi, heldur gangi þau hönd í hönd í mörgum atriðum. Í bókstaflegri merkingu hafa sennilega jafnaðarmenn í Austurríki gengið lengst í því að viðurkenna þetta í orði (enda eru þeir nú hlutfallslega stærstir jafnaðarmannaflokka í Evrópu), svo og í Vestur-Þýskalandi. Á borði hafa Skandinavar einnig viðurkennt þessa miklu breytingu. Bretar eru hins vegar ívið ,,frumstæðari" í þessum efnum.

Hér á Íslandi má segja að Alþýðuflokkurinn hafi í reynd viðurkennt þessa megin breytingu með þáttöku í viðreisnarstjórninni, sem svo er kölluð, og stefnuskrá hennar. Áðdáunarvert plagg er einnig stefnuskrá frjálslyndra og vinstri manna frá 1969, þar sem þessi hugmyndafræðilega viðurkenning er beinlínins tekin fram í nafni flokksins.

Í grófum dráttum má lýsa þessum kenningum svo, að framleiðslan sjálf skuli lúta markaðslögmálum - og það alvöru markaðslögmálum - en hins vegar sé ríkið ævinlega tilbúið til þess að grípa inn í , bæði með hjálparaðgerðum og eins með fyrirbyggjandi aðgerðum, t.d. með því að setja auðhringalöggjöf, með skattlagningu, eða með félagslegri stýringu í takmarkaðar auðlindir. Jafnframt sé þjónusta og smárekstur sem mest rekinn eftir lögmálum markaðarins. Hins vegar sé byggt ofan á þetta kerfi velferðarþjóðfélag, svo sem í menntamálum, heilbrigðismálum, með styrkjakerfi til listamanna o.s.frv. Með þessum hætti er grundvallarhugmyndum frjálshyggju og velferðarríkis blandað saman. 

Úr grein Vilmundar Gylfasonar, Frjálshyggja og jafnaðarstefna og íslenskar aðstæður, sem birtist í Morgunblaðinu í apríl 1979.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bragi Einarsson

Eins og ég hef sagt áður: Mikill hugsuður var hann Vilmundur!

Bragi Einarsson, 28.11.2006 kl. 23:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Nýkratar

Nýkratar
Nýkratar er félagskapur fólks sem aðhyllist sósíaldemókratisma (jafnaðarstefnu) í stjórnmálum.

Fólk

Hugmyndabankar Sósíaldemókrata

Sósíaldemókratar um heim allan

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband