Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2007

Óábyrg evru umræða?

Í fréttum sjónvarps spyr fréttamaður forsætisráðherra (skrifað upp eftir minni):  

Segir það ekki eitthvað um krónuna að það megi ekki tala um hana


Og Geir svarar:  

Nei, það segir frekar eitthvað um þá sem tala þannig um hana.


Þetta er skrýtin pæling hjá herra Haarde.  Þannig að sú staðreynd að krónan flakki upp og niður við slæmt eða gott umtal segir meira um þá, sem tala um krónuna, heldur en krónuna sjálfa?!  

Og samkvæmt Geir þá er það eingöngu Samfylkingin, sem ber ábyrgð á slæmu tali um krónuna.  Þar þykir mér hann full upptekinn af okkur jafnaðarmönnum, sem er svosem ekkert nýtt.  Hann virðist  (kjósa að) gleyma utanríkisráðherra Íslands, mönnum einsog Birni Inga auk fjölda aðila í íslensku viðskiptalífi, sem hafa talað um möguleikann á því að taka upp evru.

Það er ekki hægt að kæfa umræðuna um evruna og ESB endalaust með því að kalla þá umræðu alltaf "ótímabæra" eða "óábyrga".  Það sem er óábyrgt er að Sjálfstæðisflokkurinn hefur reynt að kæfa allt tal um ESB í mörg ár með því að neita að taka þátt í umræðunni sökum þess að hún sé að þeirra mati "ótímabær".  Núna sjá hins vegar forystumenn flokksins að menn í viðskiptalífinu sætta sig ekki við þessa þögn og vilja sjá Ísland í ESB.

Það er erfitt fyrir Sjálfstæðismenn að sætta sig við þessar breytingar í þjóðfélaginu, en þeir hjálpa ekki málstað sínum með því að grípa alltaf til þess ráðs að kalla andstæðinga sína óábyrga.

Ísland á að sækja um aðild að ESB og taka upp evru.  Við í Samfylkingunni megum ekki láta þennan útúrsnúning Sjálfstæðismanna draga úr okkur kjarkinn í því að halda þessu fram til streitu.  Það eina sem er óábyrgt í þessari umræðu er að stinga hausnum í sandinn líkt og forystumenn Sjálfstæðisflokksins vilja gera.

- (EÖE) 


Dómur markaðarins

167 íslensk fyrirtæki hafa þegar fellt dóm sinn yfir hagstjórn ríkisstjórnarinnar og hafa með þessari leyfisveitingu (hvort sem hún verður nýtt eður ei) lýst vantrausti á efnahagsstjórnina og íslensku krónuna.

Er það ekki merkilegt að á Íslandi er komin upp sú staða að helstu boðberar frjálshyggju keppast nú við að fordæma fyrirtæki sem kjósa að gera upp í annarri mynt en þeirri íslensku!

Íslenska frjálshyggjan er sífellt að opinbera sig betur og betur sem innihaldslaus hentistefna smákónga í Valhöll. Að sjálfsögðu eiga frjálshyggjudrengirnir að „laissez-faire“ þegar kemur að uppgjörsmynt íslenskra fyrirtækja, þarna eru markaðsöflin að verki -ekki satt? Markaðurinn er að dæma hagstjórnina, líkt og fyrirtækin! 

Það er kominn tími til að umskrifa fyrsta boðorð frjálshyggjunnar: „þér hafið frelsi til athafna svo fremi sem það skaði ekki ímynd Davíðs Oddssonar!“ 


mbl.is 167 fyrirtæki hafa fengið leyfi til að gera upp í erlendum gjaldmiðli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sala á hvalkjöti ekki enn hafin

Í viðskiptablaðinu 10. janúar s.l. er greint frá því að nú tæpum þremur mánuðum „frá því að fyrsta langreyðurin var dregin á land, er sala hvalkjöts ekki hafin.“

Í greininni firrir sjávarútvegsráðherra sig ábyrgð á málinu og segir „þetta er eins og hver önnur starfsemi, ef að afurðirnar seljast ekki eða það er ekki eftirspurn eftir vörunni, þá heldur auðvitað enginn áfram þeirri framleiðslu.“

Þarna birtist sýn sjávarútvegsráðherra á málið svart á hvítu. Gerir ráðherra sér enga grein fyrir því hvaða áhrif hvalveiðarnar hafa þegar haft á aðra útflutningsafurðir og þá álitshnekki sem land og þjóð hefur orðið fyrir í alþjóðasamfélaginu? Allt til þess að veiða nokkra hvali sem eru síðan getum ekki selt!

Hefði ekki verið lágmarkskrafa að kanna hvort markaður væri fyrir hvalkjöt áður en farið var í þetta mikla áróðursstríð af hálfu Hvals HF og markaðsskrifstofu þeirra við Skúlagötu? Ætlar sjávarútvegsráðherra algjörlega að hlaupa frá málinu eða viðurkenna að upptaka veiðanna hafi verið mistök? Mistök sem hafi að óþörfu skaðað íslensk útflutningsfyrirtæki og ferðamannaiðnaðinn svo ekki sé talað um ímynd lands og þjóðar.

 

Já, eða Nei: Eru allir í Samfylkingunni sammála um þetta mál?

Það er svo skrýtið með íslenska pólitík að aðeins einn flokkur er gagnrýndur stanslaust fyrir þá staðreynd að allir flokksmenn skuli ekki vera sammála um ákveðin málefni.  Ágætt dæmi um þetta kom fram í Silfri Egils í dag.  Þar krafðist íhaldsmaðurinn í settinu þess að Össur Skarphéðinsson svaraði fyrir það hvort að allir í Samfylkingunni væru sammála um stækkun álvers í Hafnarfirði.

Af einhverjum ástæðum virðast talsmenn annarra flokka ekki þurfa að svara slíkum spurningum.  Kjarni málsins er þessi:

  1. Samfylkingin er næst stærsti stjórnmálaflokkur landsins og því eðli málsins samkvæmt rúmast þar fólk með ólíkar skoðanir.
  2. Stefna Samfylkingarinnar í þessu álversmáli er að láta kjósendur í Hafnarfirði velja hvort þeir vilji stækkun álvers.
  3. Það skiptir því engu máli hvort að einhverjir þingmenn eða meðlimir í Samfylkingunni séu hlynntir álveri og einhverjir á móti - íbúarnir í Hafnarfirði munu ráða!

Í öllum flokkum er til fólk, sem er hlynnt stækkun og á móti - en það breytir því ekki að stefna Samfylkingarinnar er ákveðin.  Dettur einhverjum í hug að spyrja Geir Haarde hvort að allir í Sjálfstæðisflokknum séu hlynntir eða á móti þeim málum, sem þeir standa fyrir í ríkisstjórn?

Kannski erum við Kratar ekki jafnmikil hjarðdýr og Sjálfstæðismenn.  Við erum gjarnari á því að láta það í ljós þegar að skoðun flokksins okkar er ólík okkar eigin skoðunum - ólíkt til dæmis þeim frjálshyggjumönnum sem virðast gleyma mörgum sínum grunngildum þegar þeir hafa fengið að setjast á þing fyrir Sjálfstæðisflokkinn.  

Við Kratar sameinumst í jafnaðarmannaflokk útaf því að við erum sammála um ákveðin grunngildi jafnaðarstefnunnar.  Það að við séum í sama flokki þýðir samt EKKI að við séum sammála um alla hluti.  Þetta er algengur misskilningur, sem er vert að leiðrétta

- (EÖE)


Fjölskyldur í ófjölskylduvænum hverfum?

Það er alveg þess virði að vísa á leiðara Jóns Kalddal í Fréttablaðinu í dag, sem fjallar um einstaklega furðulega herferð borgarstjóra Reykjavíkur, sama gamla Villa, gegn spilakassasal í Mjóddinni.

Nú þarf það svo sem ekkert að koma manni á óvart að Sjálfstæðismenn vilji hafa vit fyrir þegnum þessa lands, en það sem er einkennilegra er það hvernig Vilhjálmur skiptir höfuðborginni uppí "fjölskylduvæn" svæði og önnur svæði, sem eru þá væntanlega "ófjölskylduvæn".  Jón Kaldal talar um opnun spilakassasalarins:

Meginrök borgarstjóra gegn því framtaki eru að borgaryfirvöld vilji ekki starfsemi slíkra "ógæfukassa" í fjölskylduvænum hverfum.

Af því tilefni er rétt að spyrja hvort Vilhjálmur viti ekki að nú þegar eru reknir salir með spilakössum víða um borgina, og það í hverfum sem hingað til hafa ekki talist fjandsamlegri fjölskyldum en önnur hverfi?  Ef sú er raunin, þá má borgarstjóri taka hinn nýja og að því er virðist röggsama lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins, Stefán Eiríksson, sér til fyrirmyndar og fá sér göngutúr um borgina sína. 

Nú bý ég nálægt miðbæ Reykjavíkur, þar sem rekinn er spilasalur.  Það finnst Vilhjálmi allt í lagi, þar sem mitt svæði er sennilega ekki "fjölskylduvænt" í hans huga.  Það finnst mér magnað þar sem að ég er alltaf að sjá lítil börn á leikskólanum við hliðiná blokkinni minni og á æfingasvæði KR, sem er ekki langt frá mér. 

Borgarstjóri segir um þetta

Ég sannreyndi að til að banna spilakassa í söluturnum þarf að grafa mjög djúpt lögfræðilega en mun hins vegar fara yfir þessi mál heildstætt með eigendum spilakassanna og reyna að ná sátt um að þeir séu ekki settir upp í fjölskylduvænum fjölskyldukjörnum

 

(feitletrun mín)

Þessi spilasalur í Mjóddinni er fullkomlega löglegur og það er einfaldlega hræsni af borgarstjóra að vilja ekki svona "óæskilega", en fullkomlega löglega starfsemi í sínu heimahverfi bara vegna þess að hann skilgreini sitt hverfi sem "fjölskylduvænt".

Borgarstjóri þarf líka að svara fyrir það hvernig hann skilgreini ófjölskylduvæn hverfi.  Eru fjölskyldyrnar sem þar búa í minni metum hjá borgarstjóra og eiga þær fjölskyldur að sætta sig við að hvers konar starfsemi sé þar rekinn á meðan borgarstjóri haldi verndarskildi yfir þær fjölskyldur sem búi í "fjölskylduvænu" hverfunum?  Það væri gaman að heyra.

- (EÖE)


Skýring á slæmu gengi framsóknar í skoðanakönnunum?

Ingvi Hrafn, sem er við það að stofna nýjan fjölmiðil kemur með athyglisverða skýringu á lélegu fylgi framsóknar í skoðanakönnunum.  

Mér og gamla íhaldsþingmanninum bar líka saman um að Framsókn ætti 9 til 10 þingmenn,stuðningsmennirnir fyndust bara svo illa í skoðanakönnunum, væru að mjólka eða í gegningum, er Gallup hringdi.

Athyglisverð kenning! 

Við kratar erum auðvitað of uppteknir á kaffihúsum bæjarins til að svara kallinu frá Gallup.

- (EÖE)


Hinn feminíski VG

hypocriteHvers konar róttækur feministi tekur því ekki fagnandi að geta stuðlað að því að kona verði í fyrsta sinn forsætisráðherra Íslands? Tjah, formanni hins feminíska VG-flokks finnst það allavegana varla mikilvægt, sbr. ummæli hans í Kryddsíldinni um hugsanlegt forsætisráðherraefni kaffibandalagsins. Í staðinn fjasaði maðurinn um að "þeir sem ynnu stærsta sigurinn í kosningunum" ættu nú að eiga tilkall til embættisins. Frekar aumt það.

Sama dag skrifar varaformaður sama flokks undir áramótaannál á Múrnum þar sem hæðst er að endurminningum Margrétar Frímannsdóttur, eins af velheppnaðri stjórnmálamönnum síðari ára, og grínast með að hún heimfæri endurminningar Thelmu Ásdísardóttur upp á sjálfa sig. Sjúklegur húmor hjá varaformanninum og virðist varla bera þess merki að hún beri virðingum fyrir raunum Thelmu í æsku né skilji að neinu marki baráttu Margrétar fyrir auknum áhrifum innan Alþýðubandalagsins, þvert gegn vilja karlaklíkunnar.

Flokksmenn þess flokks sem þessir tveir einstaklingar eru í forsvari fyrir hreykja sér af því við hvert tækifæri að þeir séu einir flokka með stefnu í kvenfrelsismálum og raunar eini flokkurinn sem leggur áherslu á feminíska stefnu. Við gerum okkur grein fyrir því að sjálfsgagnrýni getur vafist fyrir mönnum, en er ekki tilvalið fyrir þá feminista sem hafa hugsað sér að kjósa Vinstri græna að velta því aðeins fyrir sér hvort sú stefna sé í rauninni nokkuð annað en orðin tóm?

Að þegar raunverulega reyni á, þá sé það kratahatrið sem trompi kvenfrelsið út af borðinu? 


« Fyrri síða

Nýkratar

Nýkratar
Nýkratar er félagskapur fólks sem aðhyllist sósíaldemókratisma (jafnaðarstefnu) í stjórnmálum.

Fólk

Hugmyndabankar Sósíaldemókrata

Sósíaldemókratar um heim allan

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband