Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2006

Áfellisdómur yfir efnahagsstjórninni

S&P2(22262)Fyrr í dag lækkaði matsfyrirtækið Standard & Poor's lánshæfiseinkunn íslenska ríkissjóðsins vegna ójafnvægis á milli peningamála og ríkisfjármála hér á landi. Frá þessu er greint á heimasíðu Seðlabankans. Má rekja lækkunina beint til ósamræmis í nýsamþykktum fjárlögum annars vegar og vaxtahækkun Seðlabankans í gær hins vegar.Segir meðal annars í greiningunni:

Lækkunin endurspeglar minnkandi aðhald í ríkisfjármálum í aðdraganda þingkosninganna 2007. Breytingar við afgreiðslu fjárlaga 2007 eru þensluhvetjandi á sama tíma og brýn þörf er á að draga úr þjóðhagslegu ójafnvægi sem stafar af óhóflegri innlendri eftirspurn. Þessi þensluhvetjandi stefna er æ meira á skjön við stefnuna í peningamálum sem hefur knúið Seðlabankann til að auka enn frekar aðhald sitt, eins og hækkun stýrivaxta um 0,25 prósentur hinn 21. desember ber vitni. Þar með aukast líkur á harðri lendingu íslenska hagkerfisins, þegar dregur úr því þjóðhagslega ójafnvægi sem skapast hefur síðan útlána- og fjárfestingaþenslan hófst fyrir tveimur árum.

Koma þessar fréttir heim og saman við skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, sem unnin var að beiðni Samtaka atvinnulífsins og kom út fyrr í vikunni. Eru þar gerðar alvarlegar athugasemdir við aðhaldsleysi í rekstri ríkis og sveitarfélaga og gengið svo langt að fullyrða að heppilegast væri að taka upp nýjan gjaldmiðil, þá væntanlega evruna, ef fram heldur sem horfir. Í skýrslunni er farið ítarlega yfir samspil ríkisfjármála og peningamálastjórnunar og mælir Kratabloggið hiklaust með lestri skýrslunnar fyrir áhugasama um stjórnmál og efnahagsmál. Í skýrslunni kemur eftirfarandi meðal annars fram:

Á uppgangstímum, þegar Seðlabankinn hækkar vexti, er mjög mikilvægt að ríkisfjármálin séu tekin föstum tökum og skattar hvorki lækkaðir né gripið til annarra aðgerða sem eru til þess fallnar að auka eftirspurn í hagkerfinu. Þessu hefur verið öfugt farið undanfarin ár. Tekjuskattshlutfall hefur verið lækkað og gefin fyrirheit um að tekjum vegna einkavæðingar Símans yrði ráðstafað í miklar framkvæmdir. Slík hegðan hefur eðlilega mikil áhrif á væntingar og vekur vonir um frekari uppgang og þar með eftirspurnaraukningu. Það leiðir á endanum til verðbólguþrýstings.

Efnahagsstjórn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins fær falleinkunn, ef tekið er mið að skýrslu Hagfræðistofnunar annars vegar og viðbrögðum erlendra matsfyrirtækja við nýsamþykktum fjárlögum og vaxtahækkunum.  Það er löngu tímabært að íslenskir fjölmiðlamenn fari að fjalla um málið af meiri festu og gagnrýni og efast um þær fantasíur íhaldsmanna að hægri mönnum sé einum treystandi fyrir ábyrgri fjármálastjórn. Öllum ætti að vera ljóst að sú mýta er varla nothæf lengur.


mbl.is Lánshæfiseinkunnir ríkissjóðs lækkaðar hjá Standard & Poor's
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mörður barinn

mörðurMörður Árnason var barinn í höfuðið af lögreglunni svo hann var vankaður á eftir.

Þetta gerðist í kjölfar mótmælastöðu fyrir utan Háskóla Íslands þegar þessi þingmaður Samfylkingarinnar var aðeins 14 ára gamall.

Frásögn af þessu atviki má finna á bls.87 í nýrri bók Guðna Th. Jóhannessonar: "Óvinir ríkisins".

Kratabloggið mælir með þessari bók sem er nauðsynleg lesning öllum sem hafa snefil af stjórnmálaáhuga.


Batnandi mönnum er best að lifa

óskarogbingiKratabloggið fagnar þeirri ákvörðun Óskars Bergssonar að biðja um að verktakasamningi hans við Faxaflóahafnir verði rift eins og hefur komið fram í fréttum í dag. Í yfirlýsingu frá Óskari kemur fram að hann telji þá gagnrýni sem beinst hafi að honum að undanförnu ómaklega og af pólitískum rótum sprottna. Hann segir ennfremur: 
Í umræðunni hefur því verið haldið fram að ég sé beggja vegna borðs og þar með ófær um að gera greinarmun á hagsmunum Reykjavíkurborgar og Faxaflóahafna. [...] Það er sannfæring mín að í umræddu verkefni sé ekki um neina hagsmunaárekstra að ræða.
 

Það er miður að Óskar sjái ekki hversu óeðlileg vinnubrögð meirihlutans voru við skipan hans í þetta verkefni, enda klárlega um hagsmunaárekstra að ræða. Vonandi sér Framsóknarflokkurinn að sér við pólitískar skipanir og ráðningar í framtíðinni.


Önum ekki blint áfram- tökum upplýsta ákvörðun!

111.jpg

Áhugaverð grein eftir Dofra Hermannsson, framkvæmdastjóra þingflokks Samfylkingarinnar birtist í lesblaði Morgunblaðsins um helgina. Þar skrifar hann opið bréf til umhverfisráðherra og sækir um leyfi til rannsókna á þeirri auðlind sem felst í núverandi náttúruverðmætum á nokkrum náttúruperlum. Iðnaðarráðherra hefur ekki gefið leyfi til orkurannsókna á þeim perlum en þær hafa verið inní umræðunni sem hugsanlegir virkjanakostir. Svo sannarlega sniðug hugmynd hjá Dofra. Greinina má sjá í heild hér.

Það er vert að velta fyrir sér hvers vegna stjórnvöld hafa ekki lagt fjármuni í rannsóknir á þessum svæðum svo hægt sé að meta gildi þeirra. Í stað þess hafa stjórnvöld gefið rannsóknarleyfi til orkuvinnslu fyrir hvert svæðið á fætur öðru án þess að vita hvaða verðmæti eru fólgin í því að nýta svæðið á annan hátt. Það er nauðynlegt að staldra við, rannsaka svæðin út frá náttúrufari og nýta þá þekkingu til að taka upplýsta ákvörðun um hvernig eigi að nýta svæðið sem gæti verið til orkuvinnslu, ferðaþjónustu, útivistar eða einhvers annars.


Þeir hljóta að iða af spenningi yfir þessum notalegu samverustundum

Framsóknarflokkurinn er 90 ára í dag.

Fram kom í hádegisfréttum Stöðvar 2 að: 

"Um land allt standi framsóknarfélög fyrir hátíðardagskrá og notalegum samverustundum þar sem framsóknarmenn geta hist og haldið daginn hátíðlegan í góðra vina hópi. Boðið er upp á ýmsar ljúffengar veitingar, í föstu formi og andlegu, allt eftir því hvað andinn blæs mönnum í brjóst á hverjum stað. Þingmenn og ráðherrar munu koma við eftir því sem aðstæður leyfa.


Vandinn við bleik bindi

aoa-ps-3Tekið af heimasíðu Ágústs Ólafs Ágústssonar, varaformanns Samfylkingarinnar:

 


 


Vissum ekki að þeir væru feðgar

bjarni-hardarsonKratabloggið er í aðdáendahópi Bjarna Harðasonar fyrrverandi ritstjóra Sunnlenska fréttablaðsins.

Bjarni er einn fárra Framsóknarmanna sem reynir enn að bendla stefnu og störf flokksins síns við hugmyndafræði. Og hann hefur jafnframt þorað að láta forystuna heyra það í gegnum tíðina.

Vissulega vanþakklátt hlutverk það eins og dæmin sanna.

Við fjölluðum um framboð Bjarna til 2.sætis á lista Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi hér á síðunni fyrr í dag. Okkur var hins vegar bent á að það í dag að annar maður sem við höfum dáðst að úr fjarlægð, er einmitt sonur téðs Bjarna.

Þetta er Egill Bjarnason sem hefur staðið sig eins og hetja við hjálparstörf í Palestínu. Egill sem er egillbjarnasonaðeins 18 ára gamall hefur bloggað um reynslu sína af dvölinni í Palestínu og viðskiptum við Ísraleska setuliðið.

Það er eins og menn vita mjög alvarlegt ástand á þessum slóðum og meðferð Ísralea á palestínumönnum í rúm 50 ár gerir að ekki sér fyrir endann á því. Egill skrifar nú síðast um vin sinn sem hafi verið skotinn í höfuðið af Ísraelum, 15 ára gamall drengur úr flóttamannabúðum þar sem Egill hefur starfað.

Vonandi kemur Egill heill heim og ef svo ólíklega vildi til að karl faðir skyldi ná inn á þing þá væri óskandi að sonurinn hefði áhrif á hann í málefnum heimastjórnarsvæðanna.

Framsóknarflokkurinn hefur nefnilega ekki gert mikið við völd sín í utanríkisráðuneytinu til að stuðla að friði á svæðinu eða þrýsta á Bandaríkjamenn að láta af stuðningi sínum við mannréttindabrot Ísraela í Palestínu.

P.s. systir Egils mun vera slordóni


Íslenskir þingmenn hafa verið fullir í ræðustól Alþingis

per sandbergÍ Fréttablaðinu í dag er sagt frá því að norskur þingmaður, Per Sandberg, sé farinn í leyfi í óákveðinn tíma eftir að upp komst að hann farið fullur upp í ræðustól norska Stórþingsins. Per mun hafa drukkið þrjú ákavítisstaup og einn bjór í mötuneyti þingsins áður en hann flutti ræðu sína.

Þetta framferði norska þingmannsins hefði líklega ekki talist stórmál á hinu íslenska Alþingi en þar tíðkast að þingmenn detti í það á síðasta degi þings.

Eins og menn vita þá tefst ósjaldan að ljúka þingstörfunum og óþolinmóðir þingmenn hafa því sumir hverjir í gegnum árin byrjað að staupa sig nokkru áður en forsetinn slær loks í bjölluna.

Þess eru allmörg dæmi, bæði gömul og ný, um að þingmenn hafi sumir farið nokkuð hífaðir í ræðustól við þessar kringumstæður þó að flokksfélagar þeirra reyni að halda aftur að þeim. althingi

Áhorfendur sem fylgjast náið með sjónvarpsútsendingum frá Alþingi geta vottað um að merki ölvunar, roði í kinnum, þvoglumæli, rauð nef og augu hafa í einstaka tilfellum sést í ræðustólnum við þinglokin. Þó veit Kratabloggið ekki til þess að slompaðir þingmenn hafi gert neina alvarlega skandala í þessum ræðuhöldum. Frekar að ræðurnar hafi verið þeim mun styttri en venjulega og kannski ekki jafn liprar eða beittar.

Eftir að þinghaldi loks lýkur þá kíkja þingmenn venjulega á knæpur í nágrenni þingsins, s.s. Vínbarinn í Kirkjuhvoli eða þá að þeir safnist saman á skrifstofum einstakra þingmanna og geri vínbirgðum góð skil þar.

En þetta eru svo sem engar fréttir að stórt hlutfall stjórnmálamanna þyki sopinn góður. Það væri meira sjokk ef það væru sterkari efni.

Nýlega voru fluttar fréttir af því að danska blaðið BT hefði látið rannsaka klósettinn á danska þingingu og að á meirihluta þeirra hefðu fundist leifar af kókaíni.

Frétt Morgunblaðsins um málið fylgir hér:

FUNDIST hafa leifar eða ummerki um kókaínneyslu á salernum danska þjóðþingsins í Kristjánsborgarhöll. Kom það fram við athugun, sem blaðamenn á danska dagblaðinu BT gengust fyrir.

Blaðamennirnir könnuðu 30 salerni með sömu aðferðum og sömu tækjum og lögreglan notar og fundu kókaínleifar á þremur. Lögreglan segir enga ástæða til að efast um niðurstöðuna og haft er eftir Jørgen Rasmussen, aðstoðaryfirmanni eiturlyfjaeftirlits lögreglunnar í Kaupmannahöfn, að hann viti ekki til, að fyrrnefnd prófun hafi brugðist.

Peter Skaarup, formaður dómsmálanefndar þingsins, segir málið alvarlegt og ætlar að taka það upp í forsætisnefndinni og Christian Mejdahl, forseti þingsins, segir, að það hljóti að lokum að koma til kasta lögreglunnar.


kókaínneyslaSumir muna kannski að þýskt vikublað gerði fyrir allmörgum árum samskonar rannsókn á klósettum þýska þingsins og fundu, eins og Danirnir nú, víðast hvar merki um neyslu kókaíns.

Það er spurning hvort Ísafold eða einhver annar svipaður fjölmiðill hefur í hyggju að gera samskonar könnun á salernum við Austurvöll.


Þingmaður úr vörn í sókn

hjalli áHjálmar Árnason segist ekki vera að bjóða sig fram gegn Guðna Ágústssyni en býður sig samt fram gegn honum.

Kratabloggið hefur samúð með Hjálmari hvað þetta varðar en frést hefur af tilraunum framsóknarmanna í innsta hring undanfarna mánuði til að fá einhvern af núverandi þingmönnum flokksins til að bjóða sig fram gegn Hjálmari í 2. sætið. Bjarni Harðarson, blaðamaður og álitsgjafi fór að lokum í framboð í 2.sætið en hann er mikill aðdáandi Guðna landbúnaðarráðherra. Sókn er því örugglega besta vörnin í stöðunni fyrir þingflokksformanninn.

Fram hefur komið í fréttum að Hjálmar hafi fengið lista með 2000 nöfnum þar sem hann er hvattur til að bjóða sig fram gegn landbúnaðarráðherranum. Ekki kom reyndar fram í frétt RÚV hvort um beinar undirskriftir hafi verið að ræða en 2000 manns er u.þ.b. 35% af þeim atkvæðum sem Framsókn fékk í síðustu alþingiskosningum í kjördæminu en ekki langt frá því að vera 100% þeirra sem segjast ætla að styðja flokkinn nú skv. skoðanankönnunum.

Hjálmar er vel meinandi í vetnismálum en hefur haldið fremur klaufalega á málefnum Framsóknarflokksins þegar hann hefur komið fram sem talsmaður.

Guðni er vinsæll í mælingum á stjórnmálamönnum en það er umdeilt hvort mælingin snúi að stjórnmálastörfum hans eða uppistandi á mannamótum.

Allt í allt þá er útlit fyrir spennandi kosningu milli þessara tveggja og alls enga endurnýjun hjá Framsókn í kjördæminu.
mbl.is Hjálmar Árnason gefur kost á sér í efsta sætið í Suðurkjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umræður í Kastljósi: Drullumall Björns Inga

BingiDrengirnir hans Halldórs hafa reynt hvað þeir geta í skrifum sínum að tala upp framgöngu og framkomu Björns Inga Hrafnssonar í Kastljósi gærkvöldsins. Þar fór Helgi Seljan þáttastjórnandi yfir brot af pólitískum ráðningum Framsóknarflokksins í borginni á þeim fáu mánuðum sem eru frá borgarstjórnarkosningunum.

Sjálfur segir Björn Ingi:

Ég hef satt að segja lítið gaman að því að ræða stjórnmál á slíku plani og hef ekki haft frumkvæði að því.

Bingi og ÓskarÞvert á móti er ekki annað hægt en að draga þá ályktun að Björn Ingi kunni afar vel við sig í drullumalli og rætni dylgjupólitík. Ótrúlegast var þegar hann sagði Háskólann í Reykjavík hafa keypt sér velvild hjá Degi B. Eggertssyni, sem var með honum í þættinum, og fyrrverandi meirihluta og fengið úthlutað lóð undir skólann og í staðinn hafi Dagur fengið stöðu stundakennara við skólann. Það sjá allir sem vilja hversu fáránlegur málflutningur það er. Í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins sagði Guðfinna Bjarnadóttir, fráfarandi rektor HR og tilvonandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins,  skólann ekki sitja undir ummælum Björns Inga sem hún sagði vera út í hött og þeim vísað þeim alfarið á bug.

Guðmundur Steingrímsson fjallar um málið undir fyrirsögninni ,,Brúnn Ingi" og hvetur Kratabloggið lesendur sína til að lesa skrif hans. Um hlut Óskars Bergssonar segir Guðmundur m.a.:

Ég fullyrði að aldrei hafi nokkur maður í sögu íslenskra stjórnmála setið jafn augljóslega beggja megin borðs. Aldrei hefur jafnaugljóslega verið reynt að maka krókinn.

Anna Kristinsdóttir fyrrverandi borgarfulltrúi Framsóknarflokksins segir um málið:

Hitt að stjórnmálamenn séu líka verkefnaráðnir til sama stjórnvalds finnst mér aftur á móti á afar gráu svæði og ætti ekki að viðgangast. Ef menn á annað borð vilja vera þátttakendur í stjórnmálum og taka sæti á listum þá verða þeir að sætta sig við það að sitja þeim megin borðs.

Kratabloggið hvetur lesendur sína til að horfa á viðtal Helga Seljans við Dag B. Eggertsson og Björn Inga Hrafnsson frá því í gærkvöld.


Næsta síða »

Nýkratar

Nýkratar
Nýkratar er félagskapur fólks sem aðhyllist sósíaldemókratisma (jafnaðarstefnu) í stjórnmálum.

Fólk

Hugmyndabankar Sósíaldemókrata

Sósíaldemókratar um heim allan

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband