Leita í fréttum mbl.is

Ál-geðveiki og endalokin

Ef dæma ætti af viðbrögðum bloggara í morgun mætti ætla að gærdagurinn hafi markað upphafið að endalokum íslensks hagkerfið.  Hafnfirðingar ákváðu í gær að leyfa ekki gríðarlega aukningu á stóriðju í sínu bæjarfélagi. Þeir ákváðu að þeir hefðu það ágætt og að ekki væri endalaust hægt að fórna náttúru landsins og öðrum lífgsæðum fyrir peninga. Þeir ákváðu að það væru aðrir hlutir sem þyrftu að huga að, þegar að stórar ákvarðanir eru teknar, fyrir utan fjármagn, hagvöxt og hag erlendra stórfyrirtækja.

Ég er ekki endilega að segja að ég sé sammála Hafnfirðingum. Ég frekar andvígur fleiri álverum, en þó hefur mér fundist þessi stækkun í Hafnarfirði vera einna skynsamlegust af þessum fjölmörgu álkostum, sem hafa verið í umræðunni, þar sem að í Hafnarfirði er um að ræða fyrirtæki sem hefur starfað hér lengi og væntanlega hagstæðara að hafa færri og stærri álver.

En Hafnfirðingar sögðu nei og ég skil það að mörgu leyti. Þeim var sagt að bærinn fengi 500 milljónir - um 300.000 á hvern íbúa - en þeir sögðu nei takk. Þeir ákváðu að það væri annað, sem væri mikilvægara. Þetta virðast sumir ekki geta skilið - þeir geta ekki skilið af hverju fólk ætti að kjósa útaf einhverju öðru en buddunni.

* * * 

Svo virðist vera sem að fylgismenn ríkisstjórnarflokkanna séu alveg bandbrjálaðir útaf þessari höfnun. Ég veit ekki hvort að margir þeirra hafi verið að drekkja sorgum sínum í Campari í gærkvöldi, en ummælin á moggablogginu eru mörg hver hreint mögnuð. Ég tók saman nokkur komment (feitletranir mínar).

  • Já nú getur hnigunin hafist. Það verður aldrei neitt “alræði öreiganna” nema auka fátækt almennilega.

  • En það góða er að nú geta Hafnfirðingar einbeitt sér að grænni framtíð í formi prjónaskapar og álíka iðnaði

  • Stjórnmálamenn eru kosnir til þess að stjórna. Þegar þeirra nýtur ekki lengur við tekur múgur götunar að sér stjórnina.

  • Nú hefur lýðurinn takið afstöðu og meirihlutinn vill ekki samþykkja stækkun álversins í Straumsvík. Mikið slys, líklega bara umhverfisslys.

  • Sá hópurinn sem helst barðist gegn stækkuninni, sér heiminn rétt eins og félagi Davíðs fyrir westan. Sá heitir George Dobbljú Bush

  • þetta er svartasti dagur Íslandssögunar.

  • Jæja þá er það nú loksins staðfest að rétt rúmlega helmingur Hafnfirðinga eru Hálfvitar ef marka má þessa niðurstöðu úr álverskorsningunum.

  • Að mínu mati er þetta mjög svo svartur dagur fyrir Hafnfirðinga því að þetta hefur ekki bara áhrif á álverið heldur MÖRG önnur fyrirtæki í HFJ sem að fara líklega á hausinn og þetta gæti orðið til þess að Hafnarfjörður verði draugabær…

  • Þetta náttúrlulega gekk ekki lengur. Endalaus velmegun, vöxtur og hagsæld öllum til handa. Atvinnuleysistölur langt undir ?eðlilegum? mörkum. Það varð bara að koma böndum á framþróunina og það tókst. Til hamingju Hafnfirðingar!

  • Álverið tapaði - fólkið í landinu tapaði.

Þetta er magnað. Ólíkt því sem hefur verið haldið fram á mörgum bloggsíðum, þá var ekki kosið um “framfarir” í gær. Það var kosið um stækkun á álverksmiðju. Fjölmargar aðrar þjóðir hafa búið við “framfarir” án þess að hafa til þess möguleika á að selja rafmagn á lágmarksverði. Þetta fólk hefur stuðlað að framförum með því að mennta íbúana og með því að búa svo í haginn í efnahagslífinu að heillandi sé fyrir einstaklinga að stofna fyrirtæki.

En á Íslandi virðast margir hægri menn telja að eina leiðin áfram sé með álbræðslu. Eina leiðin til “framfara” er sú að ríkið búi til einhverjar stórar hugmyndir um hvernig eigi að leysa öll vandamálin með pennastriki. Umræðin er orðinn einsog einhvers konar “bizarro world” þar sem upp er niður og hægri menn berjast fyrir stalinískum stóriðju”lausnum” á meðan að vinstri menn reyna að stoppa þá.

Þetta kemur líka að einhverju leyti fram hjá ungu fólki í dag. Það vilja allir vinna í bönkum, allir hjá stórfyrirtækjum. Ólíkt því sem er í Bandaríkjunum þar sem allir vilja sjálfstætt og “small business owner” er kóngur, þá er stórfyrirtækjum hampað á Íslandi. Það er hálfpartinn hallærislegt að vinna að einhverju litlu, og orðið athafnamaður hefur í margra huga frekar neikvæðar merkingar.

* * *

Það allra furðulegasta við þetta er þó sú krafa frá mörgum Sjálfstæðismönnum að aðrir flokkar skýri það út hvað eigi að koma í staðinn fyrir álver. Það er einsog að þetta fólk geri sér ekki grein fyrir því að það er ekki hlutverk stjórnmálaflokka í markaðshagkerfi, að finna upp atvinnugreinar til að skapa atvinnu útum allt land. Það er hlutverk ríkisvaldsins að skapa bestu hugsanlegu aðstæður til þess að einka-aðilar geti stofnað fyrirtæki og skapað atvinnu á landinu, en ríkið á ekki að búa til fyrirtækin og atvinnuna.

Það sem þetta fólk gleymir líka er að skýra út er hvað eigi að gera á eftir Húsavík. Ok, reddum Húsvíkingum með álveri. Þá erum við búin að redda tveim sveitarfélögum með álverum. En hvað eigum við svo að gera? Hvernig verksmiðjur eigum við að reisa þegar það koma upp vandamál á Ísafirði og á Höfn? Loðdýrarækt kannski?

Staðreyndin er auðvitað sú að það að nota nánast alla virkjanlega raforku á Íslandi í aðgerðir til að bjarga litlum sveitarfélögum útá landi er stórkostlega skammsýnt - og það að vera á móti því er ekki það sama og að vera á móti “framförum”. Nei, ég er ekki með neinar patent lausnir á þessum málum, enda hefur það enginn einn maður. Lausnin er að skapa hérna aðstæður til að fólkið geti bjargað sér sjálft. Að skapa hér aðstæður til þess að einstaklingurinn geti blómstrað. þar sem að lítil fyrirtæki geti tekið lán á eðlilegum vöxtum til þess að þeir geti komið hugmyndum sínum í framkvæmd. Meira að segja Davíð Oddson áttar sig á því að ef við viljum halda þessari þensluhvetjandi stóriðjustefnu áfram, þá mun það bitna á annarri uppbyggingu í landinu.

Nei, hugmyndir Ómars um eldfjallagarð eða einhver prjónastofa í Hafnarfirði, eða lítið fyrirtæki í ferðaþjónustu á Höfn, munu ekki koma í stað fyrir álver ein og sér. En ef að ríkið skapar aðstæður fyrir þessu fyrirtæki til að vaxa og dafna, þá getum við skapað hér fjölbreytt og áhugavert atvinnulíf, sem við getum verið stolt af. Atvinnulíf þar sem við getum ekki bara skilað hagsæld til næstu kynslóða, heldur líka stórum hluta af ósnertri náttúru landsins. Það væru svo sannarlega framfarir, sem við gætum öll verið stolt af.

(EÖE) 


mbl.is Erfið ákvörðun en nauðsynleg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Elfur Logadóttir

heyr heyr!

Elfur Logadóttir, 1.4.2007 kl. 23:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Nýkratar

Nýkratar
Nýkratar er félagskapur fólks sem aðhyllist sósíaldemókratisma (jafnaðarstefnu) í stjórnmálum.

Fólk

Hugmyndabankar Sósíaldemókrata

Sósíaldemókratar um heim allan

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband